Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is þetta skiptið.
Bæði Þorgerður og Hrafnkell eru miklir stuðningsmenn Liverpool og líkar eðlilega hvað þau hafa séð undir stjórn Arne Slot, sem tók við sem stjóri af Jurgen Klopp í sumar.
„Hann var ótrúlegur karakter og þeir eru ólíkir. Ég andaði í bréfpoka þegar hann (Slot) var að fara af stað með þetta en svo er þetta að ganga ótrúlega vel og hann er að smellapassa sem eftirmaður Klopp. Mér leiðist líka ekki að hann sé Hollendingur. Ég held alltaf með Hollandi á stórumótum,“ sagði Þorgerður létt í bragði.
Hrafnkell skellti sér á Anfield á dögunum og sá liðið vinna endurkomusigur á Brighton. „Ég var þarna um síðustu helgi og það er mjög góður andi. Ég fékk geggjaðan leik þó við höfum ekki verið spes í fyrri hálfleik.“
Hrafnkell benti svo á að það mætti ekki gleyma því að Slot hafi tekið við frábæru búi af Klopp í sumar.
„Það er eins og það hafi verið aðeins gert lítið úr afrekum Klopp eftir að Slot kom og fór að ganga vel en Klopp sagði það sjálfur þegar hann fór að hann væri að skilja liðið eftir á mjög góðum stað. Slot fær eiginlega ekki neinn leikmann. Það sem ég myndi hrósa honum virkilega fyrir er hvað hann er búinn að gera fyrir Ryan Gravenberch.“
Umræðan í heild er í spilaranum.