Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is þetta skiptið.
Þar var að sjálfsögðu rætt um frækinn sigur Víkings á Borac Banja Luka frá Bosníu í Sambandsdeildinni á fimmtudag. Liðið kom sér í álitlega stöðu upp á að koma sér áfram á næsta stig keppninnar.
Hrafnkell telur þó að það sé miður að leikir Víkings í Sambandsdeildinni hér á landi þurfi að vera spilaðir um miðjan dag á virkum degi vegna þess að ekki er völlur með lögleg flóðljós í boði.
„Klukkan 14:30 á fimmtudegi í roki. Þetta er ekki nógu gott,“ sagði Hrafnkell og Þorgerður tók undir þetta.
„Félögin, með KSÍ, verða að ryðja brautina. Það er ekki eins og það sé ekkert fjármagn þarna. Þau verða bara að tryggja það að allavega einn völlur sé með flóðljósum og vinna saman að því. Við erum bara að ná þeim gæðum í íslenskum fótbolta.“