AS í Kólumbíu greinir frá því að Arsenal og Barcelona hafi sett sig í samband við Aston Villa í október.
Ástæðan er framherjinn Jhon Duran sem hefur vakið athygli á þessu tímabili þrátt fyrir að vera ekki byrjunarliðsmaður Villa.
Framherjinn hefur nýtt tækifærin virkilega vel á Villa Park og hefur skorað átta mörk í 16 leikjum í öllum keppnum.
AS segir að Arsenal og Barcelona hafi spurst fyrir um Duran í október en hann er samningsbundinn til ársins 2030.
Aston Villa hafði engan áhuga á að ræða sölu á leikmanninum og hafnaði þá einnig tilboðum í hann í sumarglugganum.
Duran gæti sjálfur reynt að komast burt 2025 ef hann fær ekki fleiri mínútur í fremstu víglínu á næstu vikum.