„Það er mikill heiður að vera hérna, bara gaman,“ segir landsliðsmaðurinn Logi Tómasson fyrir komandi verkefni gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Logi er leikmaður Strømsgodset í Noregi en hann hefur verið í hópnum undanfarið og er ánægður með það.
Hann segir það ekki flókið að komast inn í hópinn hjá landsliðinu. „Bara mjög vel, það er auðvelt að koma inn í þennan hóp og mikið af strákum sem maður þekkir. Skemmtilegur hópur.“
Logi telur möguleikana gegn Wales á föstudag vera góða. „Bara mjög góða, þetta verður ekki auðveldur leikur en við eigum mikinn séns á móti þeim.“
Logi er sáttur með lífið í Noregi þar sem hann hefur verið búsettur í rúmt ár. „Mjög ánægður, búið að ganga vel undanfarið. Mjög sáttur með lífið í Noregi.“
Logi var nálægt því að fara frá Strømsgodset í sumar og vonast eftir því að eitthvað gerist í janúar. „Núna er það bara fókus að klára tímabilið í Noregi og sjá hvað gerist í janúar.“