Markvörðurinn Jökull Andrésson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni þennan föstudaginn, en þátturinn kemur út á 433.is vikulega.
Jökull sneri aftur heim í uppeldisfélag sitt, Aftureldingu, á láni frá Reading seinni hluta leiktíðar í Lengjudeildinni og átti stóran þátt í að tryggja sæti liðsins í efstu deild.
„Þetta er búið að vera eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef gert í lífinu. Þetta er liðið sem ég ólst upp í, ég er úr Mosó. Þetta var svo sætt,“ sagði Jökull í þættinum.
Það tók tíma að sannfæra Jökul um að koma í Aftureldingu, en hann hefur gert góða hluti í neðri deildum Englands. Magnús Már Einarsson þjálfari sannfærði hann þó og við tóku frábærar vikur.
„Það voru önnur lið sem höfðu áhuga en Maggi kom með þetta fullkomna plan, hvað hann langaði að gera fyrir mig og hvað ég ætti að gera fyrir þá. Ég hugsaði með mér að þetta gæti orðið ævintýri og það varð raunin.
Þetta voru alveg tveir mánuðir. Rétt áður en ég fór til Englands var ég aðeins að æfa með Aftureldingu. Hann tók mig inn á skrifstofu og sagðist vilja fá mig. Ég er náttúrulega búinn að vera mikið í League One og League Two og þetta er aðeins öðruvísi level. Ég tók auðvitað allt inn sem hann sagði en maður var ekki 100 prósent viss.“
Eftir tap í fyrsta leik eftir komu Jökuls gekk allt eins og í sögu og Afturelding fór að lokum upp í Bestu deildina í gegnum umspil Lengjudeildarinnar.
„Ég fæ þrjú mörk á mig í fyrsta leik og hugsaði að þetta gæti orðið eitthvað. En eftir þennan fyrsta leik byrjum við bara að fljúga.“
Umræðan í heild er í spilaranum.