Víkingur byrjaði vegferð sína í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld en liðið tapaði 4-0 á útivelli gegn Omonia í Kýpur.
Víkingur sýndi á köflum sínar bestu hliðar en sterkt lið Omonia hafði að lokum betur.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Víkingar urðu fyrir áfalli þegar einn besti maður liðsins, Tarik Ibrahimagic var borin af velli. Tarik lenti í samstuði við samherja sinn, Oliver Ekroth og fékk þar högg á andlitið. Áfall fyrir Víkinga.
Omonia skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik en þeir Senou Coulibaly og Andronikos Kakoulli komu Omonia í 2-0 og allt stefndi í að leikurinn myndi enda þannig.
Heimamenn hlóðu hins vegar í tvö mörk undir lok leiksins og unnu sannfærandi 4-0 sigur sem var alltof stór miðað við gang leiksins.
Það er stutt á milli í þessu fyrir Víkinga sem þurfa að koma sér heim til Íslands á morgun og mætir liðið Stjörnunni í áhugaverðum leik á sunnudag.