Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur rift samningi sínum við Vestra. Þetta staðfestir Samúel Samúelsson í samtali við 433.is. Varnarmaðurinn var með ákvæði í samningi sínum.
Ekki er þó útilokað að Eiður semji aftur við félagið sem hélt sér uppi í Bestu deildinni á laugardag.
Eiður gekk í raðir Vestra fyrir tímabilið frá ÍBV, gerðist það nokkuð óvænt.
Varnarmaðurinn knái var valinn besti leikmaður Vestra á liðnu tímabili en liðið hélt lokahóf á laugardagskvöld.
Eiður er 34 ára gamall miðvörður sem lék áður með ÍBV og Val hér á landi. Uppeldisfélagið hans ÍBV er komið aftur upp í Bestu deildina og Þorlákur Árnason hefur tekið við þjálfun liðsins.
Ekki er útilokað að ÍBV reyni að fá Eið Aron aftur heim en mikill áhugi er hjá Vestra að halda í kappann.