„Við sóttum það sem við ætluðum okkur í allt sumar, við vorum langbesta liðið í 90 mínútur og langbesta liðið síðustu fjóra mánuði. Þetta var virkilega vel gert,“ sagði Halldór Árnason í viðtali á Stöð2 Sport eftir að liðið varð Íslandsmeistari í kvöld.
Breiðablik vann 3-0 sigur á Víkingi í hreinum úrslitaleik um sigur í Bestu deild karla, sigur Blika var aldrei í hættu.
„Mér fannst þeir aldrei komast neitt í þessum leik,“ sagði Halldór á Stöð2 Sport um leik Víkings. „Í 3-0 á 90 mínútur vorum við að hápressa, menn misstu aldrei trúna.“
„Það þurfti margt að ganga upp, þetta var markmiðið. Þetta var mikilvægt, við erum búnir að vinna að þessu í langan tíma. Við byrjuðum í febrúar.“
„Blika samfélagið út um allt, maður fann stuðninginn úr öllum áttum. Til hamingju Breiðablik.“