„Ég fæ símhringingu einn morguninn frá stjórnarmanni Vals þar sem mér er tjáð það að þeir ætli að segja upp samningnum mínum,“ segir Berglind Björg Þorvaldsdóttir fyrrum framherji Vals í samtali við Morgunblaðið.
Samningi Berglindar var rift beint eftir tímabilið en málið kom Berglindi í opna skjöldu. Ákvæðið var í samningi Berglindar og vildi stjórn Vals virkja það.
Berglind sem eignaðist sitt fyrsta barn undir lok síðasta árs var að koma sér af stað á nýjan leik, hún átti ágætis spretti í sumar.
Berglind segir þjálfarateymi Vals ekki hafa haft hugmynd um málið. „Ég hringdi strax í aðstoðarþjálfarann Ásgerði Stefaníu Baldursdóttir og svo heyrum við saman í Pétri Péturssyni þjálfara. Þau fara svo í það að ræða við stjórnina og eftir á fæ ég svo að vita að það voru tveir karlmenn í stjórninni sem tóku þessa ákvörðun, án samráðs við þjálfarana.“
Berglind hefur átt farsælan feril sem framherji en hún kom til Vals frá PSG í Frakklandi en auk þess var hún lengi vel í stóru hlutverki í landsliðinu.