„Ég gat ekki séð að Andri yrði leikmaður þegar hann var krakki. Ég er ekki að vera neikvæður, hann var lítill og feitur og hélt á boltanum undir hendinni,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen við enska blaðið Mirror um son sinn, Andra Lucas Guðjohnsen.
Andri Lucas á orðið fast sæti í íslenska landsliðshópnum og var keyptur til belgíska liðsins Gent í sumar fyrir mikla fjármuni.
Eiður segist ekki hafa getað séð það fyrir að Andri yrði atvinnumaður. „Ég fór að sjá þetta þegar hann var sjö eða átta ára að hann gæti þetta. Hann tók mjög góð skref í unglingastarfi Espanyol þegar ég var að spila með Barcelona.“
Eiður hefur mikla trú á ágæti Andra í dag. „Hann getur orðið hinn fullkomni framherji, ég horfði aldrei á mig sem slíkan því ég þurfti alltaf einhvern til að vera fyrir framan mig. Andri þarf það ekki, hann er ekta framherji. Hann treystir á stuðning miðjumanna og kantmanna.“
„Andri er sterkur í loftinu, miklu betri en ég var. Hann hefur allt til þess að halda áfram að taka góð skref á ferlinum.“
Eiður minnir svo á að Andri sé aðeins 22 ára og í raun að taka sín fyrstu skref. „Þetta er aðeins hans annað tímabil í meistaraflokki, hann var í vandræðum í Svíþjóð þar sem þjálfarinn var ekki á hans bandi.“
„Hann fer svo til Lyngby og eftir þrjár æfingar þar þá vissu þeir að hann væru hinn fullkomni framherji fyrir þá. Núna er hann svo í Belgíu hjá Gent.“