Arnór Sveinn Aðalsteinsson ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðablik.
Arnór Sveinn hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og tekur við keflinu af Eyjólfi Héðinssyni sem er að koma til annarra starfa hjá Breiðabliki.
Arnór Svein þarf ekki að kynna fyrir Blikum en hann hefur leikið 277 leiki fyrir félagið. Hans fyrsti leikur var árið 2003 og varð hann bikarmeistari með liðinu árið 2009 og Íslandsmeistari 2010. Arnór spilaði einnig sem atvinnumaður í Noregi og varð Íslandsmeistari með KR árið 2019. Hann sneri aftur til Breiðabliks árið 2022 og hefur spilað með liðinu síðan.
,,Ég er gríðarlega stoltur af mínum tíma sem leikmaður og þeim þroska sem ég hef öðlast en nú finn ég að tímapunkturinn er réttur að stíga inní nýtt hlutverk. Ég hlakka til að vinna með Halldóri og teyminu í heild, strákana þekki ég vel og svo eru forréttindi að fá að starfa hjá mínu uppeldisfélagi.” Segir Arnór Sveinn.
Halldór Árnason þjálfari er virkilega sáttur ,,Ráðningin á Arnóri er mikilvægt skref í að halda áfram á þeirri braut sem liðið hefur verið á síðastliðin ár. Arnór kemur með góða reynslu inn í teymið frá leikmannaferlinum þar sem hann átti frábæran feril innanlands, utanlands og með landsliðinu. Arnór hefur góða innsýn í hvað þarf til að ná árangri, hefur gríðarlega skemmtilega sýn á fótbolta og áhugasverðar hugmyndir um hvernig hann vill kenna leikinn. Arnór kemur til með að veita ungum leikmönnum okkar dýrmæta leiðsögn og hvatningu líkt og hann hefur gert vel síðastliðin ár sem leikmaður.síðastliðin ár sem leikmaður“.
Þá hefur einnig verið gengið frá áframhaldandi ráðningum á öðrum í þjálfarateyminu en Haraldur Björnsson, markmannsþjálfari og Eiður Ben Eiríksson hafa báðir framlengt sína samninga við Breiðablik. Helgi Jónas Guðfinnsson, styrktarþjálfari, er jafnframt ennþá í teyminu.