Jóhann Berg Guðmundsson fyrirliði íslenska landsliðsins lofsyngur Craig Bellamy þjálfara Wales en Ísland og Wales mætast í Þjóðadeildinni í kvöld.
Bellamy var aðstoðarþjálfari Burnley í tvö ár þar sem Jóhann Berg var leikmaður liðsins en þeir yfirgáfu báðir herbúðir Burnleu í sumar.
Jóhann hélt til Sádí Arabíu og Bellamy tók við liði Wales.
„Ég þekki hann mjög vel, frábær þjálfari og frábær manneskja. Við áttum góðan tíma sama, það er erfitt í landsliði að koma með þinn stíl. Ég veit hvernig hann vill spila, þetta snýst um okkur á morgun. Ég veit að hann vill spila góðan fótbolta, þetta er erfitt með aðeins nokkrar æfingar. Það mun taka tíma fyrir hann að fá sinn stíl í gegn,“ sagði Jóhann Berg á fréttamannafundi í gær.
Jóhann segist hafa rætt við samherja sína í landsliðinu um stílinn sem Bellamy vill nýta sér. „Við höfum rætt um þetta, hann hefur bara stýrt liðinu í tveimur leikjum. Hans fótbolti er ekki þarna, við verðum að vera klárir í það sem við fáum á morgun. Völlurinn á morgun verður erfiður, við höfum skoðað hvernig þeir vilja spila og við reynum að hafa okkar stíl á morgun þar sem við erum á heimavelli.“
„Hann hefur mikla ástríðu, hann var náinn okkur leikmönnum. Hann er frábær manneskja, hann hjálpaði okkur mikið. Hann var mikið í klefanum að reyna að rífa okkur upp þegar illa gekk, hann var góður með sóknarmennina á æfingasvæðinu. Ég get sagt margt jákvætt um hann.“