Tímabilið í Kaplakrika hefur fjarað nokkuð hratt út en ljóst er að FH getur ekki jafnað stigafjölda sinn frá því í fyrra í Bestu deild karla.
Heimir Guðjónsson er á sínu öðru ári í endurkomu sinni í Kaplakrika. Eftir vel heppnað fyrsta ár hefur ekki tekist að taka næsta skref.
Heimir tók við FH haustið 2022 en þá hafði FH verið í tómu klandri og rétt bjargað sér frá falli.
Heimir kom FH í efri hlutann í deildinni og sótti 40 stig í 27 leikjum, það var bæting um 15 stig frá árinu á undan.
FH hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í efri hluta Bestu deildarinnar núna og er liðið með 33 stig þegar tveir leikir eru eftir.
Það er því ljóst að FH mun ekki ná að jafna stigafjölda sinn frá síðustu leiktíð en liðið á eftir að mæta Val og Stjörnunni í tveimur síðustu leikjum tímabilsins.