Undrabarn Chelsea, Kendry Paez, virðist vera mikill vandræðagemsi en hann hefur nú verið varaður við af ekvadorska knattspyrnusambandinu.
Paez fékk viðvörun fyrr á þessu ári eftir að hafa sést á skemmtistað í landsliðsverkefni en hann er aðeins 17 ára gamall.
Það atvik átti sér stað í Bandaríkjunum í mars á árinu og þótti sérstaklega alvarlegt þar sem Paez er langt frá því að vera löglegur inni á skemmtistöðum.
Þrátt fyrir viðvörunina þá er Paez kominn í klípu á ný en hann sást á skemmtistað fyrir helgi stuttu áður en Ekvador hefur leiki í undankeppni HM.
Strákurinn á að baki 15 landsleiki fyrir aðallið Ekvador en hann mun ganga í raðir Chelsea í júlí á næsta ári.
Um er að ræða gríðarlega efnilegan strák sem varð yngsti leikmaður í sögu Suður-Ameríku til að skora í undankeppni HM í fyrra aðeins 16 ára gamall.