Arne Slot, stjóri Liverpool, virðist hafa skotið aðeins á fyrrum stjóra liðsins, Jurgen Klopp, fyrir leik gegn Crystal Palace í gær.
Slot og hans menn spiluðu í hádeginu á laugardegi og höfðu betur með einu marki gegn engu á útivelli.
Klopp yfirgaf Liverpool í sumar en hann kvartaði margoft yfir því að það væri ósanngjarnt að hans menn þyrftu að spila í hádegi um helgar eftir leiki í miðri viku.
,,Ég tel að þetta hafi lítið að gera með leiki í hádeginu, að mínu mati þá eru allir útileikir erfiðir,“ sagði Slot.
,,Við spilum oft klukkan 12:30 og fólk hefur verið í því að tala um þann leiktíma. Við ættum að tala um útileikina því það eru þeir sem eru áskorunin.“
,,Ef það er erfitt að standast væntingar 12:30 þá er ég mjög heimskur þjálfari því við æfum klukkan 12 á hverjum einasta degi.“
,,Ég sé ekki af hverju það ætti að vera erfitt að spila vel á þeim tíma.“