Markvörðurinn Jökull Andrésson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni þennan föstudaginn, en þátturinn kemur út á 433.is vikulega.
Jökull lék á láni hjá Aftureldingu seinni hluta leiktíðar í Lengjudeildinni og átti stóran þátt í að koma liðinu upp í efstu deild. Kappinn er samningsbundinn Reading fram á næsta sumar, en hann hefur verið lánaður víða þaðan undanfarin ár.
Nú snýr hann aftur til Reading en má ekki spila með liðinu fyrr en í janúar eftir lánið með Aftureldingu. Hann veit ekki hvað tekur við en vill helst fara á stað þar sem hann getur fest rætur með unga fjölskyldu sína.
„Ég hef eiginlega ekki hugmynd. Ég veit að ég er bara að fara að æfa á fullu en persónulega veit ég ekki hvað ég vil vera mikið lengur í Reading. Hvað er maður að fara að bíða lengi? Ég er kominn með fjölskyldu, var að eignast dóttur, og ég er ekki að fara að bjóða þeim upp á að flytja bara allt í einu til Carlisle eða Morecambe.
Það sem mig langar núna mest er að skrifa undir hjá einhverju liði, spila og vera þar í 2-3 ár. Það var ekkert mál að flakka á milli en ég er kominn með barn, sem skiptir mig mestu máli í dag, þá getur maður ekki boðið upp á það,“ sagði hann í þættinum.
Jökull er opinn fyrir því að fara endanlega til uppeldisfélagsins í Mosfellsbæ en hann vill líka sjá hvaða leikmenn verða fengnir þangað og slíkt. Nefnir hann að það væri ekki leiðinlegt að fá bróður sinn, Axel Óskar Andrésson, úr KR.
„Það er alltaf eitthvað sem ég er opinn fyrir. Hvernig getur maður ekki verið jákvæður gagnvart því eftir allt sem er búið að gerast. Það hljómar ótrúlega vel. Ég myndi ekkert hata að hafa brósa fyrir framan mig og Ísak Snæ uppi á topp. Ef ég væri að fara aftur í Aftureldingu þá væri það ekkert til að halda okkur uppi. Mig myndi bara langa að komast í Evrópu eða eitthvað.“
Umræðan í heild er í spilaranum.