Júlíus Magnússon miðjumaður Fredrikstad í Noregi hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Wales og Tyrklandi.
Hópurinn kemur saman á mánudag.
Júlíus kemur inn sökum þess að Aron Einar Gunnarsson gat ekki gefið kost á sér vegna smávægilegra meiðsla.
Aron samdi við Al-Gharafa í Katar á dögunum. Aron lék sinn fyrsta leik með Al-Gharafa á þriðjudag í Meistaradeildinni í Asíu en þar meiddist hann lítillega.
Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands hafði ætlað að velja Aron í hópinn fyrir leiki gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Á fréttamannafundi í fyrradag sagði Hareide að Aron væri á leið í myndatöku og það færi eftir því hvað kæmi úr henni hvort Aron kæmi inn í hópinn.
Aron staðfesti í samtali við 433.is að hann sé lítillega tognaður aftan í læri og verði frá í tvær vikur. Hann komi því ekki inn í hópinn eins og vonir stóðu til um.
Júlíus Magnússon (5 leikir) hefur verið kallaður inn í leikmannahóp A landsliðs karla fyrir komandi Þjóðadeildarleiki við Wales og Tyrkland, og telur hópurinn þá 24 leikmenn. #viðerumÍsland pic.twitter.com/UTZqEK1uO0
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 4, 2024