Landsliðsþjálfari Englands, Lee Carsley, hefur komið sínum manni Harry Kane til varnar eftir leik í Meistaradeildinni í vikunni.
Kane átti alls ekki góðan leik er Bayern Munchen tapaði 1-0 gegn Aston Villa og átti aðeins tvær marktilraunir.
Englendingurinn fékk töluverða gagnrýni fyrir frammistöðuna en Carsley segir að það sé óþarfi að hafa áhyggjur af markavélinni.
,,Harry Kane er leikmaður sem mun alltaf skora mörk. Stundum er auðvelt að kenna sóknarmönnunum um því þeir eiga að skora mörkin,“ sagði Carsley.
,,Þú þarft samt aðstoð fram á við, það þarf að búa til færin fyrir hann. Að mínu mati er hann að gera vel og tölfræðin talar sínu máli.“
,,Það er ekki hægt að efast um hans gæði. Ég get bara tjáð mig um það sem ég sé á æfingasvæðinu. Hann er á góðum stað.“