Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands telur að gervigrasvæðing á Íslandi og í fleiri löndum sé ástæða þess að ekki eru til jafn góðir varnarmenn og áður. Er þetta stærsti hausverkur Hareide þegar kemur að vali í landsliðið.
Á árum áður voru yfirleitt ansi margir varnarmenn sem voru til taks á meðan veikleikinn var í sóknarleiknum. Þetta er öfugt í dag.
Hareide sagðist hafa verið að ræða þetta við fólk undanfarið en þetta vandamál er víðar en á Íslandi.
„Það er sama vandamál í Svíþjóð og Noregi, þau eins og Ísland eru lönd sem nota mikið gervigras. Það er erfiðara að búa til varnarmenn á gervigrasi,“ sagði Hareide.
Hareide segir að það sé allt öðruvísi að verjast á gervigrasi, þetta verði til þess að varnarmenn frá þessu löndum lenda í vandræðum þegar keppt er á hinu stóra sviði þar sem allir leikir fara fram á náttúrulegu grasi.
„Það er öðruvísi að verjast á gervigrasi, ég hef séð leiki á Íslandi og þar er vandamálið það að varnarmenn loka ekki nógu vel á sóknarmenn. Þeir loka ekki á fyrirgjafir því þeir óttast að vera teknir á og vera skildir eftir.“
„Það er erfiðara að búa til góða varnarmenn á gervigrasi, það er pirrandi að gefa auðveld mörk. Ef við gefum mörk þá pirrar það mann, það skilur liðið eftir í vandræðum. Varnarleikur er svo mikilvægur í fótbolta.“