Stefán Teitur Þórðarson vakti mikla athygli í síðasta verkefni landsliðsins en hann lék þá sem djúpur miðjumaður og spilaði afar vel.
Stefán hafði ekki átt fast sæti í landsliðshópi Age Hareide fyrir þetta en er nú að festa sig í sessi.
Miðjumaðurinn knái frá Akarnesi skipti um lið í sumar og samdi við Preston á Englandi en hann lék áður mmeð Silkeborg í Danmörku.
„Hann var að glíma við meiðsli þegar ég tók fyrst við en ég fylgdist vel með honum hjá Silkeborg,“ sagði Hareide á fréttamannafundi í dag.
Hareide kynnti þá hóp sinn fyrir leiki gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
„Hann er með dýrmæta eiginleika, hann er öflugur í föstum leikatriðum og getur tekið löng innköst. Stefán er góður á boltann, ég vil spila í gegnum miðjuna og hann er öruggur þar.“
„Hann hefur gert vel hjá Preston, hann er að koma inn í Championship deildina sem er erfið. Ég er ánægður með Stefán og hans frammistöðu, vonandi sjáum við það besta frá honum í næstu leikjum.“