Það má öllum vera ljóst að Martin Keown fyrrum varnarmaður Arsenal er ekkert sérstaklega hrifin af Ruud van Nistelrooy aðstoðarþjálfara Manchester United.
Nistelrooy og Keown elduðu grátt silfur innan vallar og Keown telur í dag að Nistelrooy sé að grafa undan Erik ten Hag, stjóra Manchester United.
„Ég horfi á van Nistelrooy. Er hann að gera allt fyrir stjórann? Ten Hag virkar mjög einmana á hliðarlínunni,“ sagði Keown á Talksport.
Talið er að starfið hjá Ten Hag hangi á bláþræði og jafnvel er ýjað að því að hann verði rekinn eftir næstu helgi.
„Er Nistelrooy að bíða eftir því að fá starfið? Það virðist sem breytingar séu í vændum.“
„Eru allir að leggja sig fram? Ég sé það ekki frá Van Nistelrooy, Ten Hag situr einn og það eru engin samtöl í gangi. Pep Guardiola ræðir mikið við sína aðstoðarmenn.“
„Eru allir búnir að líta í spegil og spyrja sig að því hvort þeir séu að gera sitt besta.“