Aron Einar Gunnarsson er formlega orðinn leikmaður Al-Gharafa í Katar en félagið staðfesti komu hans til félagsins nú í dag. Aron verður skráður í Meistaradeildarhóp félagsins.
Aron rifti samningi sínum við Þór í september til að eiga þann kost að semja við lið erlendis og nú er það komið á hreint.
„Aðdragandinn var nokkuð stuttur, gerðist bara hratt. Ég var komin út og við ætluðum að pakka húsinu og svo kemur símtal um að lið vanti leikmann í Meistaradeildarhópinn í Asíu, þeir spurðu um áhuga minn og það var það besta í stöðunni að koma sér í það,“ segir Aron í samtali við 433.is.
Aron Einar hafði í nokkur ár leikið með Al-Arabi í Katar og ákvað fjölskyldan að taka veturinn þar í landi þegar Al-Gharafa hringdi.
„Við vorum nánast búin að ákveða að vera hérna áfram, strákarnir yrðu áfram í skólanum hérna. Þetta gerðist hratt út frá liðinu en við vorum að ákveða það að búa hérna í Katar fram í febrúar.“
Al-Gharafa er eitt af sterkari liðunum í Katar en Aron sem er 35 ára gamall er spenntur fyrir þessu tækifæri.
„Þetta er lið sem hefur verið í uppbyggingu hérna í Katar, sem eru með góðan hóp af heimamönnum og útlendingum. Öflugan þjálfara sem hefur góða reynslu, þetta var kjörið tækifæri fyrir mig að koma inn í þetta. Mjög sáttur með þetta.“
Aron Einar samdi við Þór í lok júlí og lék sex leiki með uppeldisfélagi sínu þar en hann var í viðræðum við önnur félög erlendis áður en hann fór til Al-Gharafa .
„Það var lið í Katar sem var að koma upp í fyrra, það datt upp fyrir sig í lokin. Ég átti samtal við Frey (Alexandersson, þjáflara Kortrijk) en hann er með gífurlega stóran hóp í Belgíu, þetta spilaðist eins og þetta spilaðist. Við vorum að plana það að fara út eftir tímabilið og það heppnaðist þó ég sé bara í Meistaradeildarhópnum. Ef maður spilar eins og maður gæti maður verið tekin inn í deildarhópinn.“
Al-Gharafa mun spila áhugaverða leiki í Meistaradeild Asíu en þar á meðal er leikur við Al-Nassr frá Sádí Arabíu. „Við erum að spila hörkuleiki, þetta eru andstæðingar frá Dubai, Íran og Sádí Arabíu. Það verður gaman að taka þátt í þessum leikjum gegn þessum köppum.“
Aron hafði lengi glímt við meiðsli áður en hann kom inn á völlinn með Þór í sumar. „Það hefur gengið upp og ofan, það er kom smá bakslag. Það var vitað mál, við vissum að þegar við fórum af stað að það yrðu einhverjar æfingar sem ég yrði að sitja hjá. Mér fannst þetta gefa mér sjálfstraust upp á framhaldið.“
„Maður var búin að æfa aðeins í fótbolta en það er allt annað að spila, maður sleppir sér meira í leik. Það er gott upp á framhaldið að vita að þetta er í lagi og maður getur gefið 100 prósent í þetta.“
Aron segir samtalið við Þór opið en hann mun leika með liðinu á nýjan leik en það ræðst af tíma hans hjá Al-Gharafa hvenær hann mætir aftur.