Greenock Morton í Skotlandi hefur rift samningi sínum við Jay Emmanuel-Thomas eftir að hann var handtekinn vegna eiturlyfjasmygls.
Emmanuel-Thomas fyrrum framherji Arsenal hefur verið handtekinn og er grunaður um að hafa flutt inn kannabis til Englands frá Taílandi.
Verðmæti þess sem flutt var inn er talið hafa verið um 110 milljónir króna.
Efnin voru flutt til Englands í ferðatösku en efnin fundust við leit á Stansted flugvellinum í London.
„Við getum staðfest að samningi við leikmanninn hefur verið rift samstundis;“ segir í yfirlýsingu Greenock Morton sem leikur í næst efstu deild Skotlands.
Emmanuel-Thomas var handtekinn á flugvellinum en hann er 33 ára gamall, tvær konur voru einnig handteknar vegna málsins.
Emmanuel-Thomas var í stutta stund hjá Arsenal en lék einnig fyrir Ipswich Town, Bristol City, Queens Park Rangers og PTT Rayong í Taílandi.