Keppni í fyrri hluta Bestu deildar karla lauk á mánudagskvöld með tveimur leikjum og framundan er æsispennandi keppni í neðri og efri hluta.
Meðalfjöldi áhorfenda á leikjum fyrri hluta Bestu deildar karla í ár var 871, en alls sóttu 114.935 manns leikina 132. Um er að ræða fjölgun frá fyrra ári. Sumarið 2023 var meðalaðsóknin í fyrri hlutanum 843.
Flestir voru að jafnaði á heimaleikjum Breiðabliks, eða 1.279, og skammt þar á eftir eru heimaleikir KR þar sem meðaltalið var 1.239.
Áhorfendafjöldinn á KR-vellinum fór í tvígang yfir tvö þúsund, annars vegar í leik KR-inga og Víkinga (2.170) og hins vegar í viðureign KR og Breiðabliks (2.107). Best sótti leikurinn í fyrri hlutanum í ár var á Kópavogsvellinum þegar Breiðablik tók á móti Víkingi, en áhorfendafjöldinn þar var 2.215. Hin viðureign sömu liða, á Víkingsvellinum, var einnig vel sótt. Þar mættu alls 2.108 áhorfendur.