Fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is, en þættirnir koma út vikulega í mynd og á hlaðvarpsveitum.
Emil, sem lagði skóna á hilluna í fyrra, á að baki 73 A-landsleiki og fór á bæði EM 2016 og HM 2018 sem leikmaður. Þetta var auðvitað rætt í þættinum.
„Að hafa fengið að upplifa þetta er eitthvað sem mann hafði ekki einu sinni dreymt um. Maður horfði á myndbönd frá þessu og hugsaði ekki einu sinni um hvað væri gaman ef við værum þarna. Maður fór ekki þangað í huganum,“ sagði Emil.
Hann rifjaði þá upp hvernig það var að mæta frábæru liði Argentínu á HM.
„Að spila á móti Argentínu fyrsta leikinn í Moskvu var þvílík upplifun. Við vorum nýbúnir að horfa á eitthvað myndband kvöldið áður þar sem var verið að tilbiðja Messi. Það var rosalegt að sjá hvernig Argentínumenn voru í kringum þetta.“
Umræðan í heild er í spilaranum.