Khaled Al-Issa, stjórnarformaður Al-Ahli, hefur staðfest það að félagið hafi reynt að fá Vinicius Junior í sínar raðir í sumar.
Það var heldur betur erfitt verkefni en um er að ræða einn besta leikmann heims sem spilar með Real Madrid.
Al-Ahli leikur í Sádi Arabíu og gat nánast fjórfaldað laun Vinicius sem ræddi við félagið um stutta stund.
Að lokum var hætt við þessi félagaskipti en Al-Ahli einbeitti sér frekar að framherja og fékk Ivan Toney í sínar raðir frá Brentford.
,,Við vildum fá inn vængmanninn Vinicius frá Real Madrid en á meðan viðræður voru í gangi þá gerðust óvæntir hlutir,“ sagði Al-Issa.
,,Að lokum þá hættum við við vængmanninn og byrjuðum að ræða við Ivan Toney og Victor Osimhen og Toney kom hingað að lokum.“