Pep Guardiola stjóri Manchester City mun taka stöðuna á Erling Haaland á morgun og sjá hvort hann sé í ástandi til að spila. Haaland er í sárum en einn hans nánasti vinur og starfsmaður hans, Ivar Eggja lést í vikunni.
Ivar glímdi við veikindi í skamma stund sem voru hans banamein. Ivar var nánasti starfsmaður Haaland fjölskyldunnar og sá um allt fyrir kappann.
„Þetta er erfitt fyrir hann, þetta eru sorglegar fréttir,“ segir Guardiola um stöðu Haaland fyrir leikinn gegn Nottingham Forest.
„Hugur okkar er hjá Haaland og fjölskyldu hans, við sjáum á morgun hvort hann sé í ástandi bæði líkamlega og andlega.“
Ivar flutti með Erling til Þýskalands þegar hann gekk í raðir Dortmund og sá um allt sem þurfti, sama gerðist þegar Erling fór til Manchester City.
Ivar var fæddur árið 1965 en hann var náinn vinur Alf-Inge Haaland sem er faðir Erling. Ólust þeir upp á sama stað í Noregi.