Það var hitað rækilega upp fyrir komandi leiki íslenska karlalandsliðsins í Þjóðadeildinni í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, þar sem Arnar Gunnlaugsson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar. Meðal annars var rætt um Gylfa Þór Sigurðsson, sem er mættur aftur í hópinn eftir tíu mánaða fjarveru.
Ísland mætir Svartfellingum í kvöld og Tyrkjum á mánudag. Það eru margir spenntir fyrir því að sjá hvort Gylfi, sem hefur staðið sig vel með Val í sumar, byrji í kvöld. „Ég held að hann byrji fyrri leikinn en ég veit ekki með þann seinni. Kannski þurfum við meiri hlaupara og orkustig þar. Þetta tyrkneska lið er með leikmenn í Juventus og Real Madrid,“ sagði Hrafnkell í þættinum.
Arnar telur Gylfa geti nýst íslenska landsliðinu vel á þessu stigi ferilsins. „Ég held að Gylfi gæti sinnt svipuðu hlutverki og Eiður Smári undir lokin. Ég var svolítið svekktur á þeim tíma að Eiður skildi ekki spila meira, eins og á EM í Frakklandi. Fólk vanmetur oft hungrið í þessum eldri leikmönnum. Ég held að Gylfi sé á þeim stað núna að hann myndi deyja inni á vellinum fyrir þjóðina.“
Arnar, sem er auðvitað þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, hefur hrifist af frammistöðu Gylfa í Bestu deildinni í sumar, en kappinn gekk í raðir Hlíðarendafélagsins í vetur eftir glæstan feril í atvinnumennsku. „Hann er búinn að vera frábær í Bestu deildinni. Hann er búinn að vera með gott skap inni á vellinum og verið drífandi, eins og í leiknum gegn Blikum (úti).“
Nánari umræðu um landsliðið úr Íþróttavikunni má nálgast í spilaranum.