Það var hitað rækilega upp fyrir komandi leiki íslenska karlalandsliðsins í Þjóðadeildinni í nýjasta þætti af Íþróttavikunni, þar sem Arnar Gunnlaugsson var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar.
Ísland mætir Svartfellingum í kvöld og Tyrkjum á mánudag. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hvort Orri Stein Óskarsson eða Andri Lucas Guðjohnsen eigi að byrja leikina. Arnar vill sjá þá saman frammi.
„Báðir. Þegar Íslandi gekk best var það með tvo framherja, helst tvo ólíka framherja. Kerfið snýst bara um hvernig þú ætlar að verjast en svo geturðu breytt þér í allra kvikinda líki þegar þú færð boltann. Það væri gríðarlega spennandi að sjá þá tvo saman frammi. Varnarmenn eru líka svolítið hættir að verjast gegn tveimur framherjum,“ sagði Arnar.
„Svo ertu með menn í kringum þá og það er hægt að búa til alls konar veislu. Ég eiginlega öfunda landsliðsþjálfarann að standa frammi fyrir þessu vali.“
Nánar er rætt um landsliðið í spilaranum hér ofar.