Þrátt fyrir að Orri Steinn Óskarsson sé einn eftirsóttasti sóknarmaður heims um þessar mundir velta menn því fyrir sér hvort hann byrji næstu landsleiki Íslands.
Orri, sem hefur farið á kostum með FC Kaupmannahöfn, er sennilega á leið til Real Sociedad í dag. Hann hefur þó byrjað á bekknum undanfarna þrjá landsleiki og Andri Lucas Guðjohnsen byrjað leikina.
Framundan eru leikir gegn Svartfjallalandi og Tyrklandi í Þjóðadeildinni og voru þeir aðeins til umræðu í hlaðvarpi Íþróttavikunnar á 433.is í dag.
„Er Andri Lucas senterinn okkar áfram?“ spurði Hörður Snævar Jónsson þar.
„Þetta er auðvitað skrýtið því við erum að tala um Orra sem einhvern eftirsóttasta framherja Evrópu,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson þá.
Hörður benti á að það héldist ekki alltaf í hendur, staða þín í landsliði og félagsliði.
„Alfreð Finnbogason var einu sinni markahæstur í Hollandi en sat á bekknum með landsliðinu,“ sagði hann.
„Heldur betur. Það er oft ótrúlega skrýtið hverjir passa inn í íslenska landsliðið og hverjir ekki – og í landslið almennt,“ skaut Helgi þá inn í.
Nánar var rætt um landsliðið og valið á hópnum fyrir komandi leiki í hlaðvarpinu, sem má hlusta á hér að neðan.