Samkvæmt mjög öruggum heimildum 433.is er Jón Dagur Þorsteinsson að ganga í raðir Hertha Berlin í Þýskalandi. Hann kemur til Berlin frá OH Leuven í Belgíu.
Hertha og Leuven hafa náð saman um kaupverðið og er íslenski landsliðsmaðurinn á leið í læknisskoðun.
Nokkur fjöldi liða hefur sýnt því áhuga á að kaupa kantmanninn öfluga í sumar en Hertha hefur náð samkomulagi og fer Jón Dagur þangað.
Hertha er sögufrægt félag í Þýskalandi en Eyjólfur Sverrisson gerði garðinn frægan hjá félaginu á árum áður.
Hertha Berlin leikur í næst efstu deild í Þýskalandi en liðið er með fjögur stig eftir þrjár umferðir.
Jón Dagur er 25 ára gamall en hann fór fyrst í atvinnumennsku árið 2018 en hann samdi þá við Fulham á Englandi. Hann spilaði svo í Danmörku áður en hann fór til Leuven í Belgíu.