Samkomulag er á milli FH og KR um að leikmenn sem félögin skiptu á í liðinni viku spili ekki leik liðanna á mánudag. Þetta staðfestir Davíð Þór Viðarsson yfirmaður knattspyrnumála hjá FH við 433.is
Samkomulagi er á þá leið að félögin þurfa að greiða verulegar upphæðir ef leikmennirnir spila leikinn á mánudag. Bannað er að setja ákvæði sem bannar leikmönnum að spila og hefur í mörg ár verið farið þá leið að setja inn upphæðir sem félögin vilja ekki borga fyrir einn leik.
Gyrðir Hrafn Guðbrandsson og Ástbjörn Þórðarson yfirgáfu FH og gengu í raðir KR en á sama tíma fór Kristján Flóki Finnbogason frá KR yfir í FH.
Það eru því yfirgnæfandi líkur á því að leikmennirnir spili ekki á mánudag en upphæðirnar í samkomulaginu eru slíkar að það myndi skipta nokkru máli fyrir reksturinn.
Gyrðir átti að vera í byrjunarliði KR gegn HK í gær en leiknum var frestað vegna þess að eitt mark í Kórnum var brotið. Ástbjörn var hins vegar ekki í leikmannahópi KR.
Kristján Flóki hefði ekki getað spilað leikinn á mánudag fyrir FH vegna meiðsla sem hafa hrjáð hann en hann er á batavegi og ætti að vera klár í leik gegn Val viku síðar.