Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar, skoðar nú stöðu sína og íhugar að fara annað í sumarglugganum.
Þetta herma öruggar heimildir 433.is, en Þórarinn hefur spilað minna með Stjörnunni á þessari leiktíð en undanfarin ár. Hann hefur komið við sögu í fjórum leikjum í Bestu deildinni.
Kappinn var á bekknum þegar Garðbæingar slógu norðurírska liðið Linfield úr leik í undankeppni Sambandsdeildarinnar í gær.
Hinn 34 ára gamli Þórarinn verður samningslaus eftir tímabil og má samkvæmt reglum ræða við önnur lið um að ganga hugsanlega í raðir þeirra eftir tímabil.
Þórarinn hefur verið á mála hjá Stjörnunni síðan 2018. Einnig hefur hann spilað með FH og ÍBV hér á landi, sem og Sarpsborg í Noregi um skeið.
Reynsluboltinn hefur spilað yfir 200 leiki í efstu deild á Íslandi og ljóst að hann gæti nýst mörgum liðum hér á landi vel, fari hann frá Stjörnunni.