Sveindís Jane Jónsdóttir ræddi við RÚV í kvöld eftir sigur íslenska kvennalandsliðsins á því pólska ytra.
Sveindís var hetja íslenska liðsins í leiknum en hún gerði eina mark leiksins er 32 mínútur voru komnar á klukkuna.
Ísland hafnar í öðru sæti riðilsins á eftir Þýskalandi og er búið að tryggja sér sæti á EM.
,,Auðvitað er gaman að vinna en við gátum gert aðeins betur en sigur er sigur en við þurfum að skoða þennan leik og bæta það sem þarf að bæta,“ sagði Sveindís.
,,Ég sá að hún var svolítið hæg á boltanum þarna og náði að pota honum með löngu leggjunum og svo var það eina í stöðunni að slútta.“
,,Þetta er mjög gott hjá okkur að tapa einum leik í fínasta riðli. Pólland enda neðstar með núll stig en þær voru inni í öllum leikjunum og voru hörkugóðar.“
Sveindís var vafin um hnéð og var spurð að því hvort hún væri örugglega ekki heil frekar en að glíma við meiðsli.
,,Þetta er bara lúkkið, ég ætlaði að líta út fyrir að vera geðveikt sterk.“