Jamie Carragher botnar lítið í því uppleggi enska landsliðsins að láta markvörðinn Jordan Pickford svo oft sparka langt í úrslitaleik EM gegn Spáni í fyrrakvöld.
Liverpool-goðsögnin skrifar þetta í pistli fyrir Telegraph, þar sem hann fer yfir 2-1 tap Englands í úrslitaleiknum.
Pickford sparkaði oft langt í leiknum og þrátt fyrir að Jude Bellingham og Harry Kane hafi oft unnið skallaeinvígi í kjölfarið tapaði enska liðið oft boltanum.
„Eins og Southgate kom inn á í viðtali eftir leik héldum við boltanum ekki nægilega vel gegn liði sem getur drepið þig með því að halda boltanum endalaust. Ég trúi ekki að Jordan Pickford hafi verið beðinn um að fara svona oft langt,“ skrifar Carragher en tekur einnig fram að aðrir leikmenn hafi ekki boðið markverðinum upp á nógu góða möguleika.
„Ég hef spilað nógu marga leiki þar sem leikmenn fela sig og vonast til að eitthvað komi út úr því að sparka langt. Southgate er ekki að segja þeim að gera það.“