Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefur ekki staðfest hvort tveir algjörir lykilmenn verði með gegn Bayern Munchen í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Liðin mætast í Munchen í seinni leik sínum en þeim fyrri lauk með 2-2 jafntefli í London.
Þeir Bukayo Saka og Martin Ödegaard kenndu sér báðir meins í 0-2 tapinu gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Sá fyrrnefndi kláraði leikinn en sá síðarnefndi fór af velli á 79. mínútu.
„Það er mjög stutt á milli leikja og við höfum æft mjög lítið. Við skoðum þá á morgun og sjáum hvernig þeir eru,“ sagði Arteta í gær.
Stuðningsmenn Arsenal finna sennilega huggun í því að bæði Saka og Ödegaard voru í góðum gír á æfingu Arsenal í gær. Það er þó áhyggjuefni fyrir þá að óvissa sé að einhverju leyti um þátttöku þeirra.