Eftir flottan sigur á ÍA í fyrstu umferð náðu Valsarar ekki flugi í leiknum gegn Fylki í Árbænum í gær. Arnar Sveinn varð fyrir vonbrigðum með sína menn.
„Eins og maður var nú spenntur eftir fyrsta leik á móti ÍA, þá fannst manni vera teikn á lofti um að hlutirnir hefðu einhvern veginn breyst. En svo kemur þessi leikur og þetta er bara nákvæmlega það sem maður hefur séð oft áður,“ Arnar Sveinn hann í Dr. Football.
Hann gagnrýnir nafna sinn og þjálfara Vals, Arnar Grétarsson.
„Vandamálið að mínu mati er að Arnar Grétarsson er bara að flækja hlutina allt of mikið. Þetta lið þarf ekki svona mikið af reglum og svona mikinn ramma. Það verður allt ógeðslega hægt, ekkert tempó í neinu. Leikmenn virðast ekki hafa neitt frelsi á vellinum til að fara út úr því sem á að vera að gera. Það er alltaf verið að snúa til baka og aldrei sækja fram.“
Arnar Sveinn telur að nafni sinn þurfi að breyta áherslunum á æfingum.
„Þegar þú ert með lið eins og Val, sem er stútfullt af hæfileikum, reynslu og þekkingu, hafðu þetta bara einfalt og skemmtilegt. Búðu til tempó á æfingum þannig tempóið komi inn á völlinn í leikjum. Það er ekki það sem er að gerast.
Við erum löturhægir alltaf og það er vegna þess að tempóið á æfingum er ekki neitt. Það eru langar æfingar og allt lengi að gerast. Það bara smitar inn á völlinn.“