8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu hafa verið algjör veisla hingað til og sparkspekingurinn Mikael Nikulásson segir þau til marks um það að fækka eigi liðum í keppninni.
„Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi bara fá þessa Ofurdeild á sínum tíma. Munurinn á þessum 8-liða úrslitum og öllu hinu, ég kalla þetta bara drasl sem er búið að bjóða okkur upp á. Þetta er ekki sama íþróttin,“ segir Mikael í Þungavigtinni.
Breyta á riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð. Lið spila við fleiri andstæðinga í riðlinum og ekki heima og að heiman. Mikael telur að þetta muni engu breyta.
„Þetta er ekkert í fyrsta skiptið sem þetta gerist og ekki það síðasta. Það er verið að breyta fyrirkomulaginu en það er ekkert verið að fækka í riðlakeppninni. Það verða nákvæmlega sömu 16-liða og 8-liða úrslitin.
Ef þessi Meistaradeild á að verða vinsæl frá fyrsta degi á haustin þarf að fækka liðum,“ segir Mikael ómyrkur í máli.
Úrslit úr fyrri leikjum 8-liða úrslitanna
Real Madrid 3-3 Manchester City
Arsenal 2-2 Bayern Munchen
PSG 2-3 Barcelona
Atletico Madrid 2-1 Dortmund.