Stuðningsmenn Arsenal eru brjálaðir yfir því að hafa ekki fengið vítaspyrnu undir lok leiks í 2-2 jafntefli við Bayern í Meistaradeildinni í kvöld.
Bukayo Saka féll þá í viðskiptum við Manuel Neuer en dómari leiksins taldi Saka hafa sett löppina út til að reyna að fá snertingu.
Í London var FC Bayern mætt í heimsókn til Arsenal en þar var það Bukayo Saka sem kom heimamönnum yfir á sanngjarnan hátt. Serge Gnabry jafnaði fyrir gestina en markið var sætt fyrir kappann sem var áður hjá Arsenal en fékk ekki mörg tækifæri.
Það var svo Harry Kane sem kom Bayern yfir með marki úr vítaspyrnu en hann þekkir það vel að skora gegn Arsenal eftir dvöl sína hjá Tottenham.
Bayern spilaði vel í leiknum en skiptingar frá Mikel Arteta breyttu leiknum og það var Leandro Trossard sem kom inn af bekknum og jafnaði leikinn. Staðan 2-2 og þannig lauk leiknum en seinni leikurinn fer fram í Bæjaralandi.