Liverpool er á skriði bæði í ensku úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni og evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, er farið að gera ráðstafanir skildi enska liðið fara í úrslitaleik síðarnefndu keppninnar.
Lærisveinar Jurgen Klopp eru svo gott sem komnir í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 1-5 sigur á Sparta Prag í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum. Liðið verður að teljast það líklegasta til að hampa þessum Evróputitli í lok tímabils.
Úrslitaleikur keppninnar mun fara fram í Dublin í Írlandi á Aviva-leikvanginum. Sá tekur 51.700 stuðningsmenn í sæti.
Þar sem Liverpool er ansi vinsælt félag í Írlandi og ekki er langt að fara fyrir stuðningsmenn liðsins á Englandi ætlar UEFA sér að setja upp risaskjái á Croke Park, rúmlega 80 þúsund manna velli í um 6 kílómetra fjarlægð frá Aviva-leikvanginum.
Það sama gæti verið uppi á tengingnum ef West Ham fer alla leið í úrslitaleikinn.