Arsenal er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir dramatískan sigur á Porto í kvöld.
Porto byrjaði leikinn vel en snemma í fyrri hálfleiknum tóku heimamenn öll völd á vellinum og hótuðu marki. Það kom þó ekki fyrr en á 41. mínútu þegar Leandro Trossard skoraði eftir stórbrotna stungusendingu Martin Ödegaard.
Arsenal náði ekki að fylgja markinu eftir í seinni hálfleik og gestirnir lokuðu vel á þá. Svo fór að meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma. Lokatölur 1-0 og staðan samanlagt 1-1. Því var farið í framlengingu.
Þar var mikil þreyta komin í liðin og ekkert skorað. Vítaspyrnukeppni þurfti.
Þar varði David Raya tvisvar í marki Arsenal, sem er komið áfram í 8-liða úrslitin.
Bayern Munchen, Real Madrid, Manchester City, PSG og Barcelona eru einnig komin áfram.