Gylfi sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í haust en hann skrifaði undir hjá Lyngby í Danmörku, auk þess sem hann sneri aftur í íslenska landsliðið og bætti til að mynda markametið þar.
Síðan hefur Gylfi hins vegar verið að glíma við meiðsli og rifti hann samningi sínum við Lyngby vegna þeirra. Fór hann í endurhæfingu á Spáni og í kjölfarið hefur hann æft með tveimur íslenskum liðum þar í landi, fyrst Fylki en nú er hann kominn til móts við Val í þeirra æfingaferð.
„Hann vill fara þangað því þeir æfa á morgnanna. Það er fínt fyrir hann að vera búinn um 13 leytið. Hann vill eyða meiri tíma með fjölskyldunni á skikkanlegri tíma. Svo er hann vanur þessu,“ segir sparkspekingurinn Hrafnkell Freyr Ágústsson í Dr. Football.
Gylfi æfði með Val síðasta sumar er hann var að undirbúa endurkomu sína.
„Valur hefur gert vel. Þeir eru búnir að koma honum inn í klúbbinn. Við sáum það þegar hann var mættur á úrslitakeppnina (í körfuboltanum) í fyrra,“ segir Hrafnkell.
Hann segir laun Gylfa hjá Val ekki hafa nein áhrif á það að kappinn muni velja Hlíðarendafélagið.
„Þetta snýst ekkert um peninga. Hann er að hugsa um að fá að spila bara,“ segir Hrafnkell og bætir við að geri Gylfi samning við Val verði hann sennilega til eins árs með möguleika á árs framlengingu að því loknu.