Gylfi Þór Sigurðsson er staddur á Spáni þessa dagana og gerir allt sem í hans valdi stendur til að vera klár í landsleikina í lok mars. Hann segir að allt hafi gengið vel undanfarna daga.
Gylfi Þór hefur glímt við meiðsli frá því undir lok síðasta árs. Hann segir í stuttu samtali við 433.is að endurhæfing hans gangi vel.
Hann æfir nú á Spáni með Friðriki Ellerti Jónssyni, einum færasta sjúkraþjálfara Íslands. Hann hefur í gegnum tíðina unnið náið með Gylfa.
Friðrik hjálpaði Gylfa að koma sér í gang vorið 2018 þegar hann hafði meiðst nokkuð illa með Everton, Friðrik var þá með Gylfa í þeim undirbúningi að ná heilsu fyrir HM.
Gylfi segir í samtali við 433.is að endurhæfing hans hafi gengið vel og hann hafi náð að æfa að fullum krafti undanfarið, ef ekkert bakslag komi vonist hann til þess að vera í fullu fjöri þegar Ísland mætir Ísrael í umspili um laust sæti á Evrópumótinu.
Sá leikur fer fram eftir rúman mánuð en vinni Ísland leikinn mun liðið fari í úrslitaleik við Úkraínu eða Bosníu um laust sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi.
Gylfi rifti samningi sínum við danska liðið Lyngby í upphafi árs og gaf þar með eftir launin sín hjá félaginu. Danska félagið hefur sagt að Gylfi snúi aftur þegar hann nær heilsu.