Marcel Römer, fyrirliði danska knattspyrnufélagsins Lyngby segir það virkilega fallega gert hjá Gylfa Þór Sigurðssyni að rifta samningi sínum við félagið og þar með afþakka laun.
Gylfi rifti samningi sínum við Lyngby á dögunum en hann er meiddur og hefur ekki getað spilað frá því í nóvember.
Óvíst er hvort eða hvenær Gylfi mætur aftur til Lyngby en eftir rúmlega tveggja ára fjarveru frá leiknum skrifaði Gylfi undir við Lyngby síðasta haust.
„Þetta var mjög vel gert hjá honum og Gylfi er þannig maður að hann vill gefa eins mikið af sér og hann getur,“ sagði Römer við Tipsbladet.
„Hann hefur ekki spilað undanfarið og hann vildi ekki taka laun á meðan. Þetta sýnir hvernig mann hann hefur að geyma og þetta kemur mér ekki á óvart.“
„Það er algjör óvissa um það hvenær hann mætir aftur, hann þarf að huga vel að sjálfum sér áður en af því verður.“