fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
433Sport

Einkaviðtal við Gylfa Þór: Draumurinn er að spila aftur fyrir Ísland – „Þetta hefur verið gríðarlega erfiður tími“

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 1. september 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mjög erfið,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Lyngby í einkaviðtali við 433.is þegar hann er beðinn um að lýsa fjarveru sinni frá fótboltanum. Gylfi Þór hefur ekki spilað fótbolta í rúm tvö ár en skrifaði í gær undir hjá danska úrvalsdeildarfélaginu, Lyngby. Gylfi, sem fagnar 34 ára afmæli sínu innan tíðar, gerði eins árs samning við danska félagið.

Gylfi lék síðast með Everton en vegna rannsóknar í Bretlandi hefur hann ekki spilað knattspyrnu síðustu árin, þeirri rannsókn var hætt í vor og Gylfi Þór undirbýr nú endurkomu sína á knattspyrnuvöllinn.

Hjá Lyngby mun Gylfi leika undir stjórn Freys Alexanderssonar, sem er þjálfari liðsins. Freyr hafði samband við Gylfa fyrir nokkrum mánuðum og viðraði þá hugmynd að hann myndi kíkja á æfingar.

„Lyngby aðallega út af Frey, hann hefur samband við mig fyrir töluvert löngu. Hann býður mér að koma og æfa með þeim ef ég hefði áhuga á því. Út frá því þá held ég að planið hjá honum hafi alltaf verið að fá mig til að skrifa undir hjá þeim. Síðan spjallaði ég við Alfreð og mikið við Frey, þetta er góður staður fyrir mig að byrja aftur,“ segir Gylfi Þór, en Alfreð Finnbogason yfirgaf herbúðir Lyngby á dögunum eftir góða tíma þar.

Gylfi hefur undanfarna daga verið í Kaupmannahöfn, komið sér í form eftir smávægileg meiðsli og skoðað aðstæður hjá danska félaginu. „Ég er búinn að vera í Köben í átta eða níu daga, ég hef verið í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara og með styrkarþjálfara á sama stað. Ég er koma mér aftur af stað og eiga við þessi meiðsli sem hafa hrjáð mig síðustu vikur, þetta er mikil vinna.“

Hlustaðu á viðtalið hér í spilaranum:

video
play-sharp-fill

Meiddist á fyrstu æfingu hjá Val:

Gylfi Þór fór á sína fyrstu fótboltaæfingu í sumar hér á landi þegar hann sást á æfingu með Val, hann segir það vel hafa komið til greina að spila á Íslandi.

„Ég fann fyrir þessu eftir eina æfingu hjá Val, þá kemur bólga og mar undir hælinn. Það hefur tekið gríðarlega langan tíma að losna við hann, loksins núna er þetta á réttri leið. Ég var búinn að æfa töluvert með Frikka sjúkraþjálfara, ég var búinn að æfa erfiðari æfingar en með Val. Eflaust undirlagið og takkaskórnir sem ég var í, ég hélt að þetta yrðu nokkrir dagar en síðan endaði þetta í sex vikum. Erfiðasti tíminn var eftir fjórar vikur þegar þetta var ekkert að skána.“

Gylfi hugsaði um það að spila á Íslandi en hann vildi ekki fara langt frá landinu til að vera nálægt sínu nánasta fólki.

„Ég var opinn fyrir því, mig langaði að spila fótbolta aftur og koma mér í leikæfingu. Á sama tíma vildi ég vera nálægt dóttur minni, langaði ekki að fara eitthvað langt. Hugmyndin var að vera á Íslandi eða vera nálægt Íslandi, sem Köben er. Það er mjög þægileg borg fyrir flug og annað, til og frá Íslandi. Það kom alveg til greina að spila á Íslandi.“

Gylfi Þór og Alexandra Helga eiginkona hans / GettyImages

Árin tvö mjög erfið:

Gylfi Þór lýsir tíma sínum frá fótboltavellinum sem mjög erfiðum, það hafi reynt á sál og líkama og hann hafi hugsað um það að hætta í fótbolta.

„Mjög erfið, það er ekki annað hægt að segja. Það var tími þar sem ég hélt og bjóst ekki við að ég hefði áhuga á að spila fótbolta aftur en var ekki búinn að ákveða neitt. Síðustu 3-4 mánuði þá kom löngunin aftur, koma sér í form og svo vindur þeta upp á sig. Maður fer að setja sér markmið og langar að ná þeim. Þetta hefur verið gríðarlega erfiður tími,“ segir Gylfi.

Þegar hann gat yfirgefið Bretland í vor þá átti hann frekar von á því að leggja skóna á hilluna. „Ég bjóst meira við því að hætta en að ég myndi kýla á þetta og spila fótbolta aftur, fara í gegnum það að vera frá svona lengi því það er langt í frá auðvelt að koma til baka. Þú ert vanur því að æfa á hverjum degi í sautján ár, það er sjokk fyrir líkamann að vera frá í tvö ár og keyra sig svo áfram á fullu. Þetta er heilmikil vinna, ég var ekki viss hvort ég hefði hugarfarið í það fara í gegnum það. Það kom smátt og smátt, núna er þetta áskorun fyrir mig.“

©Anton Brink 2020

Leiðinlegt að sjá Alfreð fara

Eins og fyrr segir er Freyr Alexandersson þjálfari Lyngby og hann er þekktur fyrir að geta selt hlutina vel. „Ef ég hugsa til baka, hann gerði þetta nokkuð vel. Hann þóttist vilja fá mig á æfingar og svo var samningur mættur á borðið. Burt séð frá því, ég þekki Frey það vel og sambandið hefur alltaf verið mjög gott. Mér líkar mjög vel við Frey, þetta er fullkomin lending.“

Alfreð Finnbogason var seldur frá Lyngby til KAS Eupen í Belgíu á dögunum, á þeim tímapunkti óttaðist Freyr að Gylfi myndi mögulega hætta við.

„Það var mjög leiðinlegt, ég hlakkaði til að hafa Alfreð utan æfinga og spila með honum. Hann fékk tveggja ára samning og ég ánægður fyrir hans hönd, leiðinlegt fyrir mig að missa hann. Ég er ekki að koma hingað bara út af Alfreð, ég er að koma mér í stand aftur og spila fótbolta. Það er fullt af öðrum liðsfélögum sem munu hjálpa mér að aðlagast. Það var engin hætta á því að ég myndi hætta við.“

Hann segir tilhugsunina við það að klæða sig aftur í búning á leikdegi vera stórkostlega. „Það er geggjað, það er langt í land. Það er mikið af æfingum sem ég þarf að fara í gegnum, það er allt annað að hlaupa og hjóla en að vera á vellinum. Ég vona að það séu þrjár til fjórar vikur, ef ég get æft á fullu. Þá getur maður horft á það vera í kringum hópinn, stýra álaginu og koma inn af bekknum. Það mun taka mig einhvern tíma að ná fyrri styrk.“

Getty Images

Landsliðið stór hluti af ákvörðun Gylfa.

Íslendingar geta farið að láta sig hlakka til að sjá Gylfa Þór aftur á Laugardalsvelli, því ein af stærstu ástæðum þess að þessi magnaði íþróttamaður ákveður að halda áfram í fótbolta er til þess að spila í bláu treyjunni á Laugardalsvelli.

„Það er ein af stærstu ástæðunum fyrir því að ég er að fara að spila aftur, mig langar að spila fyrir landsliðið. Mig langar að spila heima, spila á Laugardalsvelli. Maður er það ruglaður að mig langaði að spila núna í september, þó ég sé ekki búinn að æfa. Að spila fyrir Ísland er ein af tveimur aðalástæðunum að ég er að fara spila aftur.“

Hann hefur fylgst vel með liðinu undanfarið og segir möguleikana á að ná árangri til staðar. „Það hefur verið erfið byrjun hjá strákunum, vonandi gengur þeim vel í september og þá þarf að fylgja því eftir í október. Það er möguleiki í gegnum umspilið, það er alltaf möguleiki að ná þessu í gegnum riðilinn. Næstu leikir eru mjög mikilvægir, safna stigum og þá er hægt að setja sér betri markmið.“

Age Hareide fundaði með Gylfa á dögunum og náði þjálfarinn að heilla hann. „Mér líst mjög vel á hann, mjög viðkunnanlegur. Mjög reyndur og rólegur, virkar á mig sem mjög góður þjálfari. Virkaði á mig eins og Lars þegar ég spjallaði við hann, strákarnir hafa talað mjög vel um hann,“ segir Gylfi Þór að lokum í einkaviðtali við 433.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Byrjunarliðin í enska boltanum – Rashford ekki með

Byrjunarliðin í enska boltanum – Rashford ekki með
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Tjáir sig um slagsmál sem fáir hafa heyrt um: Var aðeins tímaspursmál – ,,Vorum að fá okkur í glas og hann endaði kvöldið með glóðarauga“

Tjáir sig um slagsmál sem fáir hafa heyrt um: Var aðeins tímaspursmál – ,,Vorum að fá okkur í glas og hann endaði kvöldið með glóðarauga“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

,,Sjáðu mamma, ég spilaði fótboltaleik í gær“

,,Sjáðu mamma, ég spilaði fótboltaleik í gær“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Töluðu við nýtt vitni sem hafði allt aðra sögu að segja: Vissi ekki að konan væri á staðnum – ,,Báðu öryggisverði um að fjarlægja hana“

Töluðu við nýtt vitni sem hafði allt aðra sögu að segja: Vissi ekki að konan væri á staðnum – ,,Báðu öryggisverði um að fjarlægja hana“
Hide picture