Hið minnsta einn stuðningsmaður Þórs og mögulega fleiri til létu ógeðfellt orð falla í stúkunni um helgina þegar Njarðvík heimsótti liðið þar og vann sigur í Lengjudeildinni.
Leikmenn Njarðvíkur voru að fagna marki í leiknum fyrir framan stúkuna hjá Þór þegar orðin voru látin falla.
„Þessi verslar í Dresmann og 10-11. Og þú líka mongólíti.,“ sagði einn aðili og síðan voru það fitufordómar sem virtust beinast að varamannabekk Njarðvíkur í leiknum.
„Allir í yfirvigt á bekknum,“ má heyra svo.
Einn áhorfandi í stúkunni hafði ekki gaman af svona orðbragði. „Hvað er að ykkur? Hvetjið ykkar lið áfram,“ sagði maðurinn sem lét í sér heyra.
Málið var tekið fyrir í Lengjumörkunum hér á 433.is í gærkvöldi og atvikið fordæmt.
„Þetta er leiðinlegt fyrir heilan klúbb, þarna eru 1-2 manneskjur að eyðileggja fyrir öllum himnum. Mjög lélegt, vonandi verða þessir einstaklingar teknir á teppið,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur þáttarins.
Orðbragð í stúkunni hefur verið til umræðu undanfarið en ÍBV fékk sekt frá KSÍ fyrir ljót orð sem féllu á leik þar á bæ.