Olga Carmona var hetja Spánar í úrslitaleik HM kvenna sem lauk í Ástralíu í gær. Bakvörðurinn, sem spilar fyrir lið Real Madrid, skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri gegn Englendingum og var að auki kosin maður leiksins að honum loknum.
Þegar Carmona skoraði markið mikilvæga lyfti hún upp treyju sinni þar sem sjá mátti skilaboð sem áttu að heiðra móður bestu vinkonu hennar sem lést nýlega.
Það sem Carmona vissi þó ekki að faðir hennar hafði látist í aðdraganda leiksins en aðstandendur hennar ákváðu að bíða með að upplýsa hana um það þar til að leikurinn mikilvægi væri búinn.
Spænska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í yfirlýsingu og skömmu síðar sendi Carmona frá sér tilfinningaríkt tíst á samfélagsmiðlinum X þar sem hún líkti föður sínum við stjörnu á himninum sem lýsti henni leið.
„Og án þess að vita það þá átti ég mína stjörnu á himnum áður en leikurinn hófst. Þú gafst mér styrk til þess að afreka eitthvað einstakt. Ég veit að þú varst að fylgjast með mér í kvöld og að þú varst stoltur af mér. Hvíldu í friði, pabbi.“ skrifaði Carmona.