Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að meðferðin sem Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, mátti þola í Bretlandi hafi verið ómannúðleg.
Sigmundur gerir mál hans að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni. Greint var frá því í morgun að Gylfi væri laus allra mála í Bretlandi en saksóknarar töldu að ákæra væri ekki líkleg til sakfellingar. Var málið því látið niður falla en Gylfi hefur verið í farbanni í Bretlandi í nærri tvö ár.
Sigmundur Davíð er ómyrkur í máli á Facebook-síðu sinni.
„Þetta á ekki að geta gerst. Maður var handtekinn og svo settur í farbann og lá undir grun í nærri tvö ár. Aldrei kom fram nákvæmlega um hvað hann væri grunaður en það þó sett í flokk með einhverju versta afbroti sem fólk getur hugsað sér,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann rifjar upp að Gylfi hafi misst vinnu sína og ástríðu, andlit og nafn hans verið afmáð og drifið í að fjarlægja vörur úr verslunum sem tengdust honum á einhvern hátt.
„Íslendingar urðu fyrir miklu áfalli, börn og unglingar landsins misstu eina helstu hetju sína. Landsliðið sem hafði unnið glæsta sigra, sem fylltu okkur stolti og gleði, lenti í uppnámi og náði ekki lengur þeim árangri sem vænst var.“
Hann bendir svo á að mánuð eftir mánuð hafi ekkert verið að frétta af málinu; maðurinn, fjölskylda hans og vinir mátt þola stöðuga bið við hræðilegar aðstæður í nærri tvö ár.
„Það er mikilvægt að réttarkerfið taki ásakanir föstum tökum en það er ómannúðlegt, bæði gagnvart ákærendum og sakborningum, að mál fái að dragast von úr viti. Ekki hvað síst þegar hinir grunuðu þurfa að þola mikla refsingu á meðan.“
Sigmundur Davíð segir að þetta sé ekki bara raunin í Bretlandi.
„Á Íslandi hefur fólk mátt þola óforsvaranlega bið eftir niðurstöðu og oft verið álitið sekt í millitíðinni. Vesturlönd þurfa að rifja upp grundvallarreglur réttarríkisins. Bæði hvað varðar meðferð mála og regluna sem áður var algild: Fólk telst saklaust þar til sekt er sönnuð.“