Lögreglan í París hefur lagt fram ákæru á hendur Achraf Hakimi leikmanni PSG og landsliðs Marokkó sem er grunaður um að hafa nauðgað konu síðustu helgi. Er hann einn fremsti knattspyrnumaður í heimi í dag.
Hinn 24 ára gamli Hakimi á að hafa boðið konu heim til sín um helgina. Eiginkona hans og börn eru stödd í fríi í Dúbaí. Þar er hann sakaður um að hafa brotið á konunni, sem er 23 ára gömul.
„Ásakanirnar eru falskar og hann á rétt því að hreinsa nafn sitt,“ segir Fanny Colin lögfræðingur kappans.
Meintur þolandi leitaði til lögreglu og lét vita af atvikinu en hún vildi ekki leggja fram kæru. Saksóknarar ákváðu samt að hefja rannsókn á málinu sökum alvarleika meintra brota Hakimi og stöðu hans í samfélaginu, en hann er heimsfrægur knattspyrnumaður.
Samkvæmt Le Parisien setti Hakimi sig fyrst í samband við meintan þolanda þann 16. janúar í gegnum Instagram. Hann bauð henni svo á heimili sitt á laugardag og sendi bíl á eftir henni.
Meintur þolandi segir að eftir að hún hafi komið heim til hans hafi hann farið að kyssa hana á munninn og lyft fötum hennar. Hann hafi síðan kysst á henni brjóstin þrátt fyrir mótmæli af hennar hálfu. Að lokum á Hakimi að hafa átt við hana samfarir gegn hennar vilja.
Konan sagði lögreglu að hún hafi náð að losna frá Hakimi með því að sparka í hann, áður en hún hafði samband við vin sem náði í hana.