Mykhailo Mudryk, leikmaður Chelsea, sendi Kieran Trippier, leikmanni Newcastle, skilaboð á Instagram í gærkvöldi eftir að hafa farið illa með kappann í leik liðanna.
Chelsea tók á móti Newcastle í 8-liða úrslitum deildabikarsins. Það stefndi í 0-1 sigur gestana þegar Mudryk jafnaði fyrir Chelsea í uppbótartíma og tryggði liðinu vítaspyrnukeppni. Fór hann illa með Trippier í aðdragandanum.
Vont varð verra fyrir Trippier er hann klikkaði á vítaspyrnu í keppninni og Chelsea vann.
„Kieran, mig langar bara að segja þér að vera sterkur. Skítur skeður en mér finnst þú mjög öflugur knattspyrnumaður,“ skrifaði Mudryk á Instagram.